Langanir og þrár dansaranna í forgrunni

þriðjudagur, 17. maí 2016

Neon eftir Hannes Þór Egilsson

Okkur langar bara að dansa! Hannes hóf æfingaferlið með algjörlega óskrifað blað og samdi allar hreyfingar verksins í viðurvist dansaranna. Með eigin dansarabakgrunn að leiðarljósi leitar Hannes eftir hreyfingum og samsetningu sem eru bæði örvandi og skemmtileg fyrir augu og eyru. Hvert einasta spor í verkinu hefur verið vandlega valið og er útkoman spennandi dansstíll sem hann hyggst þróa enn meira í framtíðinni.

Hannes Þór Egilsson leitar eftir hreyfingum og samsetningu sem eru bæði örvandi og skemmtileg fyrir augu og eyru í verkinu Neon. Hannes er dansunnendum velkunnugur en hann dansaði lengi vel með Íslenska dansflokknum ásamt því að koma fram með listahópi Kristjáns Ingimarssonar. Nú síðast sló hann í gegn sem Óður í sýningu Íslenska dansflokksins á Óður og Flexa halda afmæli en ásamt því að leika annað titilhlutverkanna var Hannes annar tveggja höfunda sýningarinnar. 

What a feeling eftir Höllu Ólafsdóttur, Lovísu Ósk Gunnarsdóttur og dansara Íd

Í stöðugri leit að nýjum aðferðum við að skapa dans nýta Halla og Lovísa sér hið hefðbundna og endurvinna það í von um að hið einstaka brjótist fram. Þær vilja draga dansarann fram sem einstakling og hafa því í samvinnu við dansara Íslenska dansflokksins skapað uppáhalds sólódans hvers og eins. Sólódans byggðan á löngunum, þrám og sögu hvers dansara fyrir sig. 

Halla Ólafsdóttir og Lovísa Ósk Gunnarsdóttir vinna hvor um sig sitt hvoru megin Atlandshafsins. Halla er búsett í Stokkhólmi og starfar sem danshöfundur og dansari víða um Evrópu við góðan orðstír en hún hlaut t.a.m. Prix Jardin d’Europe á Impulz Tanz hátíðinni 2013. Lovísa er Grímuverðlaunahafi sem hefur tekið þátt í velflestum uppfærslum Íslenska dansflokksins síðan 2005 en einnig starfað í sjálfstæða geiranum sem danshöfundur og dansari. Þær stöllur koma reglulega saman og vinna undir nafninu Samsuðan & co. Síðan 2005 hafa þær skapað verkin Kólnandi Kaffi, Hundaheppni, Grease the Deleted Scenes og eru hér mættar með verkið What a feeling. What a feeling býður upp á sex ólíka sólódansa sem þær hafa skapað í samvinnu við dansara Íslenska dansflokksins byggða á löngunum, þrám og sögu hvers dansara fyrir sig.

Hægt er að tryggja sér miða á www.id.is/persona eða í miðasölu Borgarleikhússins í síma 568 8000.

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is